Skip to content

Ziltoid hinn alvitri : Söngleikur

Ég á mér draum. Í raun á ég marga drauma og mörg hver tengjast uppfærslum í anda Cecil B. DeMille. Til að mynda langar mig til að sjá og jafnvel taka þátt í “spontant” 20 mínútna söngleik á Þorláksmessu í Kringlunni, Laugaveginum eða Smáralind með þar tilgerðum kóreógrafískum dansi og fimleikum, fílum og fljúgandi hvölum og gaulandi hálfvitum angrandi saklausa vegfarendur, verslunarmenn og viðskiptavini.

En ég á mér einnig draum um geimævintýrasöngleik.

[Ziltoid:]
Jáááááá! Komið sæl jarðarbúar. Ég er Ziltoid. Hinn alvitri. Ég hef ferðast þvert yfir algeiminn. Ég skipa ykkur að ná í ykkar allra besta kaffi sem fyrirfinnst á plánetunni! Svart og sykurlaust! Þið hafið fimm jarðarmínútur. Hafið það fullkomið!

Ein uppáhaldsplata mín um þessar mundir og um komandi ár er hin stórkostlega hljóðversskífa Ziltoid The Omniscient eftir Devin Townsend. Tónlistin á þessari plötu er afspyrnu vel spiluð, svakalega vel sungin og svo eru gríðarlega skemmtilegir og góðir textar. Það er smá drama og spenna, en fyrst og fremst glens, grín og gaman með slatta dassji af flippi.

[Ziltoid:]
Þið hafið eigi sannfært hinn mikla Ziltoid. Ég er svo alvitur að ef það væri tvennar alviskur þá væri ég bæði! Undirbúið ykkur fyrir undirokun!

Í grófum dráttum fjallar platan um geimveruna Ziltoid sem ferðast hefur um endilangt um heima og geima í leit af hinum alheimsbesta og fullkomna kaffibolla. Hann kemur frá plánetunni Nebuloid 9 sem staðsett er í fjórðu víddinni. Hann hefur ratað til Jarðar og heimtar besta kaffibollann annars mun hann eyða plánetunni í þvílíkri bræði og frekju ef jarðarbúar verða ekki af ósk hans. Vitaskuld er hann ekki ánægður með kaffiframlag jarðarbúana þegar þar að kemur.

[Ziltoid:]
Liðsforingi!
[Liðsforingi:]
Já! Kapteinn Ziltoid
[Ziltoid:]
Hafa jarðarbúarnir fært oss þeirra besta kaffibolla?
[Liðsforingi:]
Ég er með hann hérna herra.
[Ziltoid:]
Einmitt… [sötr] … baaaaah! Hvernig dirfast þau að færa mér þetta! Viðbjóður! Þau fela sína bestu kaffibaun! Undirbúið árásina!

En íbúarnir á plánetunni jörð hafa sína hetju til að reyna verjast árásum Ziltoids, engann annan en Kapteinn Stórkostlegur! Stóra spurninginn er, tekst honum að halda aftur af árás Ziltoids hins alvitri? Hvað með Plánetueyðarann? Er Ziltoid bara útúrpimpaður nörd með mikilmennskubrjálæði og gífurlega gítarhæfileika? Getur hinn útúrreykti alvíddarskapari alheimsins aðstoðað Ziltoid og sálarkreppu hans? Hvað gerist næst?

[Ziltoid:]
Einmitt, mér finnst ég þurfa smá afþreyingju. Kominn tími til að eyða einhverjum plánetunum. Hvaða pláneta ætti það að vera? Þessi? Nei, of aumingjaleg. Þessi hér? Já…, kannski. Jú. Þessi mun henta ágætlega. Liðsforingji!
[Liðsforingji:]
Já, Kapteinn Ziltoid?
[Ziltoid:]
Beindu öllu afli frá aðalaflvélinni í aðalstórskotavopnin.
[Liðsforingji:]
Já kapteinn Ziltoid. Eitthvað fleira?
[Ziltoid:]
Taktu nítíu prósent af orkuforðanum og beindu því í hljóðsjávakningarbúnaðinn.
[Liðsforingji:]
Skal gert kapteinn!
[Ziltoid:]
Við verðum að boða til okkar plánetueyðarann frá sjöttu víddinni. Mig langar til að skemmta mér! Ákallaðu hann!
[Plánetueyðarinn:]
Hver dirfist að vekja plánetueyðarann?!
[Ziltoid:]
Það er ég! Ziltoid hinn alvitri frá fjórðu víddinni!

Í stuttu máli sagt, þá væri alveg gífurlega krefjandi en skemmtilegt verkefni að teygja úr þessari rúmlega 45 mínútna plötu í minnsta kosti 80-90 mínútna söngleik. Og ef söngleikir einsog Rocky Horror Show, Jesus Christ Superstar og Sweeney Todd geta náð gífurlegum vinsældum, þá efast ég ekki um að Ziltoid hinn alvitri mundi ná nýjum hæðum í gæðum söngleikja, enda er söguþráðurinn jafn fjarstæðukenndur, absúrd og asnalegur og í fyrrgreindum söngleikjum. En tónlistinn er mun betri. Til að mynda hið stórgóða lag Planet Smasher.

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*