Skip to content

dEUS

Í tilefni af þeim gleðilegu tíðindum að ný plata er komin út með belgíska bandinu dEUS þá finnst mér við hæfi að ræða ögn um eitt af mínum uppáhaldsböndum einsog mér er einum lagið.Það var vestur-íslenski bróðir minn sem gaf mér diskinn In a Bar, Under the Sea fyrir rúmlega 10 árum síðan. Var ég með í höndunum klassa-plötu? Svei mér þá, já. Hressileg bartónlist sem virkar mjög vel með bjór í hönd með ansi lunknum og skemmtilegum lagasmíðum.

Vitaskuld varð ég að fá meira með þessum dúddum. Einn gaur sem ég var að vinna með kynnti mér fyrir plötunni Worst Case Scenario, sem er debút-plata dEUS og það var líka alveg gríðarlega skemmtileg plata. 1999 kom út Ideal Crash sem, nota bene, er alveg frábær plata líka. Svo tóku þeir langa pásu árið 2000 og ýmsar mannabreytingar áttu sér stað. En komu svo saman á ný árið 2004 og gáfu út plötuna Pocket Revolution ári eftir. Nú, fjórum árum síðar, kom út Vantage Point.

Fyrstu dEUS-liðar komu saman 1989. Einu upprunalegu meðlimirnir eru Tom Barman með söng og gítar og Klaas Janzoons á hljómborð og fiðlu.  Stef Kamil Carlens byrjaði á bassa en hætti 1996 til að einbeita sér bandinu sínu. Danny Mommens tók við en hætti sama ár og dEUS komu saman á ný, 2004. Alan Gevaert er bassafanturinn í dag. Rudy Trouvé var á gítar þartil 1995. Craig Ward fyllti í skarðið til ársins 2004 og við tók Mauro Pawlowski sem einnig sér um raddir. Trommarinn Jules de Borgher var með þeim allt til ársins 2002. Stéphane Misseghers lemur húðirnar nú.

Fyrsta plata þeirra, áðurnefnd Worst Case Scenario, kom út árið 1994. Hún rokseldist í heimalandi þeirra og fékk alveg glimrandi dóma allstaðar að. Hún hefur selst í næstum 300.000 eintökum á heimsvísu. Slagarinn Suds&Soda var fyrsti síngullinn og varð ansi vinsæll, og ekki af  ástæðulausu enda hörkulag.
Suds and soda

Ári síðar kom út smáskífan My Sister=My Clock, sem er bara 26 mínútna löng upptaka og er frekar leiðinleg til áhlustunar, finnst mér. Allavega hef ég ekki nennt að leggja í að hlusta á hana oftar en tvisvar. In a Bar, Under the Sea kom út 1996 og er þrusugóð plata, pródúseruð af Eric Drew Feldman sem vann töluvert með Captain Beefheart á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar (en það eimir af Captain Beefheart á fyrstu tveim plötum dEUS). Eitt uppáhaldslagið mitt á þeirri plötu er:
For the Roses

1999 gladdist mitt svarta hjarta þegar The Ideal Crash var gefin út. Og einsog með hinar tvær, þá hlustaði ég á hana af áfergju. Maður á það nefnilega til, einsog margir aðrir, að hlusta á sumar plötur daglega og oft á dag. Ideal Crash var engin undantekning. Herbergisfélagi minn fékk aldeilis að finna fyrir því árið 2001 er ég varð ástfanginn af 10.000hz Legend með Air og spilaði fátt annað. En það er önnur saga. Í raun er sagan búin.
The Ideal Crash

Síðan frétti ég næsta árið að þeir voru hættir útaf einhverjum ágreiningi innan bandsins (þetta kallast tímabundin pása eða hiatus á hljómsveitarmáli). En ég varð skemmtilega hissa er platan Pocket Revolution kom út árið 2005. Hafði lítið fylgst með afdrifum bandsins, í raun ekkert tjekkað á því enda taldi ég að þeir væru hættir. En svo fékk ég þau gleðilegu tíðindi í maí árið 2006 að dEUS áttu að spila á NASA. GEÐVEIKT! hugsaði ég með mér. Ég þangað, sama hvað! Sem ég gerði og sá ekki eftir.
If You Don´t Get What You Want

Ég fór ásamt mínum elskulegu systrum og öðru fólki og þetta voru ægilega skemmtilegir tónleikar. Spilað var efni af öllum plötunum, en þó var lokalagið í heldur rólegri kantinum miðað við þessa þrusukeyrslu sem var. Ójæja.

En nú er komin ný plata með þeim. Vantage Point sem kom út núna í apríl. Og við fyrstu hlustun þá heldur hún áfram í sama meiði og það sem birti í The Ideal Crash en sérstaklega á Pocket Revolution, og virðist bara vera nokkuð góð. Ég get allavega með glöðu móti mælt með þessu bandi. Ég skelli bara fyrsta alþjóðlega sínglinum fyrir ykkur elskulegu lesendur (og hlustendur) til að hlusta á.
Slow

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*