Skip to content

Devin Townsend - Ziltoid the Omniscient

Devin Towsend
Ziltoid the Omniscient
2007 Inside Out Music America

“Jáááááá! Komið sæl jarðarbúar. Ég er Ziltoid. Hinn alvitri. Ég hef ferðast þvert og endilangt yfir algeiminn. Ég skipa ykkur að ná í ykkar það allra besta kaffi sem fyrirfinnst á plánetunni! Svart og sykurlaust! Þið hafið fimm jarðarmínútur… Hafið það fullkomið!”

By Your Command

Devin Townsend vélar hér fram stórskemmtilega sögu er fjallar um hin snaróða lúða frá plánetunni Nebuloid 9 sem er enginn annar en Ziltoid hinn alvitri. Hann hefur ferðast í gegnum himingeima, stjörnuþokur, ormagöng, sólkerfi og í það minnsta fjórðung af öllum hinum gjörvalla alheimi (og handan) í þónokkur ljósár til að finna Ðí Öltímeit Kaffibolla svo hann geti orðið töff gítarleikari.

Er hann nálgast himinhvolf jarðar þá sendir hann skilaboð í gegnum öll jaðarvarptæki á jörðinni þar sem hann gefur jarðarbúum fimm mínútur til að afhenda honum kaffibolla árþúsundsins. Aðeins það besta kaffi í hinum gjörvalla þekkta heim, hinum eina sanna Kaffibolla er honum boðlegt annars mun hann eyða plánetunni í þvílíkri bræði og frekju ef jarðarbúar verða ekki af ósk hans.

Vitaskuld er hann ekki ánægður með kaffiframlag jarðarbúana þegar þar að kemur. Ziltoid er bara alls ekki sáttur við kaffið og ásakar okkur um að fela bestu kaffibaunina svo hann ákveður að ráðast á jörðina af þvílíkri heift, reiði og offorsi að yfirvöld jarðar sjá sér þann kost vænstan að senda hinn snargeðveika en þó sjúklega skipulagða herkænskustríðsmann Kapteinn Stórkostlegur til að takast á við hinn kaffióða Ziltoid.

Stóra spurninginn er, tekst honum að halda aftur af árás Ziltoids hins alvitra? Hvað með Plánetueyðarann? Er Ziltoid bara útúrpimpaður nörd með mikilmennskubrjálæði og gífurlega gítarhæfileika? Getur hinn útúrreykti alvíddarskapari alheimsins aðstoðað Ziltoid og sálarkreppu hans? Hvað gerist næst?

Hvað er þetta? Dömur og herrar, þetta er hið epíska concept-stórmeistarasólóstykki Ziltoid the Omniscient eftir Devin Townsend. Tónlistin á þessari plötu er afspyrnu vel spiluð af Devin Townsend, sem sér um allan hljóðfæraleik. Svo er hún svakalega vel sungin af Devin Townsend sem auk þess sér um bakraddir. Einnig eru gríðarlega skemmtilegir og góðir textar eftir Devin Townsend. Þess má til gamans geta að hún er líka pródúseruð af Devin Townsend. Þetta er nefnilega svo sannarlega sólóverkefnið hans Devin Townsend.

Það er smá drama og spenna, en fyrst og fremst glens, grín og gaman með slatta dassji af flippi og þvílíkum twist-endi að kvikmyndamongólítinn M. Night Shamalaymanamanam hefði ekki geta dottið þvílíkt og annað eins twist í hug. Þau lög sem standa uppúr eru By Your Command, Hyperdrive og Planet Smasher.

Planet Smasher

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*