Skip to content

Veikindi er partífjör

Á mánudaginn var sló eitthvað niður hjá mér. Ég byrjaði að skjálfa af kulda, þó það væri ekkert kalt eða svitna af hita, þó það væri alveg mollulegt. Svo fylgir þessu einhverjir beinverkir, mér er illt í skrokknum og höfuðið á mér hótar hausverk á hverjum klukkutíma. Er búinn að liggja undir sæng, stundum tveim, meira og minna síðan byrjun vikunnar og verið alveg óvenju slappur.

En líkaminn er soddan skrapatæki og ólíkindatól að nú er mér verulega illt í hálsinum - s.s. komin með hálsbólgu virðist vera. Sem byrjaði í gær. Get varla sofnað því það er alveg gríðarlega sársaukafullt að kyngja.

Búinn að maula á paratabs, parasetamól, íbúprófen portfarma og drekka töluvert af vatni. Ætli ég taki ekki allavega tvær íbúprófen í viðbót. Þetta er alveg gríðarlegt fjör. Óreglulegur svefn, sveittar sængur og svitapollur á dýnunni. Það einfaldlega gerist ekki betra. Maður var að vonast eftir því að maður mundi nú eitthvað skána í dag, en það lítur út fyrir að ég eigi eftir að versna. Sem er auðvitað akkúrat það sem ég var að vonast eftir… ekki.

Kemur í ljós.

En ég er búinn að vera ansi oft veikur á þessu ári og það hentir stundum á hinum leiðilegustu tímum. Ég er nefnilega búinn að vera í rúmu vikufríi frá vinnunni og ætlaði mér að bardúsast eitthvað, en hef varla heilsu eða getu í það. Sunnudag eftir Humarhátíðina kvefaðist ég og maður hélt sig þá bara inni og reyndi að láta sér batna því maður var á leiðinni til Neskaupstaðar á Eistnaflug fimmtudaginn þá viku. Maður var svona byrjaður að skána en þessi sumarkafli var alveg asnalega kaldur. Svo maður kvefaðist á ný. En það stöðvaði mann ekkert frá því að skemmta sér ærlega og sletta úr klaufunum, seiseinei.

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*