Skip to content

Námskeið í að leggja sig

Ég er alveg agalegur í að lúra í agnarögn. Agnarögn í þessu tilviki er rúmlega klukkutími. Lagði mig í gær klukkan sautjánhundruð til sirka nítjánhundruð og vaknaði um hálfeitt. Fór fram og stússaðist aðeins og fór svo aftur að “leggja” mig og vaknaði svo aftur að nálgast níu. Kannski var þetta bara hin goðsagnakennda “uppsafnaða þreyta” og mig einfaldlega veitti ekki af að sofa dálítið. Það var nú sosum ekki einsog maður var með einhver stór plön í gærkvöldi. En vandamálið er að þetta er ekkert í fyrsta - hvað þá síðasta - sinn þar sem þreytan yfirbugar mig og ég hendi mér uppí rúm til að “hvíla” mig.

Man eitt sumarið þegar ég var þrettán eða fjórtán ára og kom heim úr bæjarvinnunni einn föstudaginn alveg drulluþreyttur. Hafði planað að horfa á Tortímandann tvö sem átti að vera sýnd á RÚV laugardagskvöldið. Ég henti mér uppí rúm og ætlaði aðeins að hvíla mig, ætli klukkan hafi ekki verið um fjögur eða fimm. Vaknaði svo að verða ellefu um kvöldið, fór fram og sjónvarpið í gangi. Einhver hörkuspennumynd sem var allavega meira en hálfnuð, sem fjallaði um vélmenni frá framtíðinni og unglingspilt.  Þarna tókst mér að sofa í meira en sólarhring eða rúmlega 30 tíma stanslaust án þess að það bærði á mér. Fannst það ansi magnað, en ansi fúlt líka því mig hlakkaði nú dálítið til að sjá Tortímandann tvö, borða pizzu og súpa gos.

4 Comments

 1. bessi wrote:

  30 tíma!?!?!? Ég held að ég hafi sofið í mesta lagi 16 eftir næturvaktabrengl.

  Voru foreldrar þínir ekkert að tékka á þér? Athuga hvort væri ekki í lagi?

  fimmtudagur, desember 4, 2008 at 20:30 | Permalink
 2. Það veit ég ekkert um, ég var sofandi.

  fimmtudagur, desember 4, 2008 at 22:37 | Permalink
 3. Vésteinn wrote:

  30 tímar, sjitt! Metið mitt er “bara” 19 tímar og ég hélt að það væri á mörgum mannlegrar getu!

  sunnudagur, desember 7, 2008 at 04:35 | Permalink
 4. Þetta verður seint toppað. Hef allavega ekki komist nálægt þessu persónulega meti.

  En, einn daginn, ó já, einn daginn þá kemur að því að ég mun sofa í meira 30 tíma samfleytt.

  Ó vei, ó já.

  sunnudagur, desember 7, 2008 at 05:55 | Permalink

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*