Skip to content

Ögn meira blaður um kannabis

Í mínu eilitla blaðri um kannabis síðasta ágúst þá ýjaði ég að því að opinber umræða um vímuefni kemur í bylgjum á nokkra ára fresti og, viti menn, hún er hafin á ný. Það hefur verið rætt um ræningja á Suðurlandi sem hafa rænt gróðurhúslömpum og auðvitað aukinni ræktun á maríjúana - og eina fólkið sem er rætt við útaf þessu “vaxandi vandamáli” er og verður nær eingöngu lögreglan og Þórarinn Tyrfingsson.

Ég hefði nú haldið að það væri gefins að framleiðsla á vímuefnum á Íslandi mundi aukast í kjölfarið á kreppunni - það er ódýrara en að smygla.

Á fréttavef RÚV má finna frétt frá 12. janúar með fyrirsögninni “Börn halda að kannabis sé hollt” þar sem segir meðal annars:

Mun fleiri unglingar reykja maríjúana en áður. [...] Þeir virðast margir telja að maríjúana sé hættulaust og í sumum tilvikum beinlínis heilsusamlegt.

Þetta eigi við um unglinga frá 14 ára aldri. [...]  Foreldrar eigi í mörgum tilvikum erfitt með að rökræða við börn sín um málið þar sem þau hafi þegar viðað að sér upplýsingum sem séu rangar.

Hæglega er hægt að gantast með það að það séu foreldrarnir sem hafa viðað að sér röngum upplýsingum, en vitaskuld er átt við börnin (eða unglingana, eða hvað sem þetta kallast nú til dags). En það er þó auðveldlega hægt að draga þá ályktun að báðir hóparnir hafa viðað að sér misvísandi upplýsingum frekar en rangar.

Það er náttúrulega ekkert sniðugt að 14 ára unglingar séu að blitzkríga á sér boðefnin með kannabis, því kannabis hefur töluverð áhrif á hinn sálræna faktor á óhörðnuðum únglíngum - vænissýki og ranghugmyndir er mjög algengt eftir neyslu á kannabis - öllu heldur meðan á vímu stendur, en það er ekkert sem góður svefn getur ekki læknað. En fyrir utan það þá er samt sem áður viss hætta til staðars að neysla geti ýtt undir einhverjar minni- eða meiriháttar geðveilur - en það er nú aðeins ef neysla þess er í óhófi. Það gildir það nákvæmlega sama um kannabis og hinn löglega vímugjafa sem er áfengi. Hóf er best í öllu.

En það er heldur ekki sniðugt að halda að fólki vitlausum upplýsingum - og þá á ég við völdum upplýsingum sem aðeins einblína á ókostina - hvorki að börnum foreldrum. Hættulaust er þetta ekki - en hægt er að draga úr hættunni ef þú gerir þér fulla grein fyrir áhrifum vímugjafans og neyslu þess. Heilsusamlegt ekki heldur - ekki frekar en sum verkjalyf (þá á ég við virknina, en ekki tóbakið sem flestir neytendur blanda útí).

Einnig er sú hætta hjá fullorðnu fólki að mikla þetta í staðinn fyrir að draga úr þessu á einhvern hátt. Það getur bara skapað frekari vandamál á heimilinu og gæti þess vegna gert afkvæmið fráhverft foreldrum sínum.  Í staðinn fyrir hysteríu þá væri máske sniðugt að reyna taka á þessu með stóískri ró - reyna ná einhverjum sáttum. Krakkar á þessum aldri eru náttúrulega algjörar hormónabombur og það sem er sagt við þau og hvernig það er orðað getur skipt alveg gríðarlega miklu máli. En ég er enginn uppeldissérfræðingur með kennararéttindi og fjórar háskólagráður í viðbót. Ég var bara einu sinni únglíngur.

Ég tel það bara vera frekar skynsamlegt af foreldrum að kynna sér það sem krakkarnir halda fram - hlusta á það sem þau hafa að segja, biðja um rökstuðning og hvar hægt sé að nálgast þessar upplýsingar, og kannski sakar ekki að vera frekar áhugasamt um umræðuefnið og jafnvel ýja að því geta vel hugsað sér að prófa þetta. Líkur eru nefnilega á því að þær upplýsingar sem þau hafa viðað að sér eru ekkert endilega rangar, heldur eru þær nákvæmlega eins valdar og hjá forvarnarstarfseminni. Munurinn er bara sá að þau einblína eingöngu á kostina.

Það eru nefnilega óneitanlega kostir og ókostir við kannabis sama hvað foreldrarnir segja og sama hvað unglingarnir halda fram. Helsta vandamálið við umræðuna um kannabis (og önnur vímuefni) er hysterían - á báða bóga - sem afmyndar upplýsingarnar.

Enn og aftur þá óska ég og bíð spenntur eftir yfirvegaðri umræðu sem gæti leitt til þess að prófaðar yrðu aðrar leiðir en bann - áfengisbannið virkaði ekki hér eða í Bandaríkjunum á 2. og 3. tug síðustu aldar og sömuleiðs hefur fíkniefnabannið heldur ekkert að virkað. Það verður bara að huga að öðrum leiðum.

2 Comments

 1. Vill benda áhugasömum á þessar tvær fínu greinar eftir Guðmund Sigurfreyr Jónasson:

  Vafasamar fíkniefnavarnir
  Kannabis og ný viðhorf í fíkniefnavörnum

  þriðjudagur, janúar 13, 2009 at 18:18 | Permalink
 2. Bessi wrote:

  Takk fyrir það. Áhugaverð lesning. Samkvæmt Wikipedia er lyfið nabilone ekki THC heldur efni sem hermir eftir virkni THC.

  En ætli flest sé ekki vel unnið hjá kjeppz.

  mánudagur, janúar 19, 2009 at 09:32 | Permalink

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*