Skip to content

3G III: Þrír Guðmundar

Fór á fimmtudaginn var í skrifstofur Símans og spurði um Guðmund Jóhannsson. Kom þá ljós að hjá Símanum starfa þrír Guðmundar Jóhannssynir. Eftir smá rannsóknarvinnu og aðstoð frá nokkrum starfsmönnum fannst hinn eini sanni Guðmundur Jóhannsson. Sá hinn sami sem ég einmitt ræddi við á mánudaginn var þá vikuna, en hann bauð mér það tilboð að að rifta sex mánaða bindissamningnum, skila netlyklinum og þyrfti ekki að hafa áhyggjur af einhverjum öðrum skilmálum fyrir utan að ég mundi borga 10.000 króna sektina. Ég - enda er ég svo dipló - sagði honum að ég skyldi hugsa málið. Og það gerði ég.

Guðmundur þessi var ansi snar í snúningi þegar ritarinn við innganginn hóaði í hann. Ég var varla sestur í fína svarta IKEA-leðursófan í biðstofunni þegar hann kom stökkvandi inn og bauð mér góðan daginn. Fékk gestapassa hjá ritaranum, sem er bara samkvæmt prótókóli. Við spjölluðum bara á vinalegu nótunum - einsog siðmenntað fólk gerir. Guðmundur þessi, einsog ég hef áður minnst á og sem reyndist vissulega rétt, er prúður sómadrengur, skilningsríkur og snyrtilegur og eflaust vel metinn hjá Símanum og samstarfsmönnum.

Ég minntist á símtalið góða og að ég væri með “gagntilboð”. Við trítluðum niður stigan í matsalinn og hann bauð mér uppá dýrindis Símakaffi á Café Síminn, sem ég vitaskuld þáði með þökkum. Fengum okkur svo sæti í kaffistofunni og spjölluðum um daginn og veginn, vantrú og báknið. Svo snéri ég mér að alvöru málsins, þ.e. “gagntilboðið” sem hljóðaði á þessa leið: a) að ég mundi halda áfram með þennan 6 mánaða bindissamning og greiða fyrir áskriftartilboð 3, sem samsvarar 3990 krónur á mánuði eða b) greiða þennan tíu þúsund kall, skila netlyklinum, rifta þessum bindissamning og flytja öll mín símaviðskipti eitthvert annað.

Þetta var náttúrulega allt á vinalegu nótunum, enda óþarfi að hækka raust sína eða æsa sig af óþörfu þar sem maður hafði nú fengið nægan tíma til að róa sig niður síðan þessi 55 þúsund kall birtist á heimabankanum mínum. Hann sagðist ætla að athuga “baklandið” sitt og hafa svo samband við mig samdægurs eða daginn eftir. Við spjölluðum ögn lengur um lífið, tilveruna og allt saman þar til við ákváðum að hér væri komið gott af hjali, enda hafði ég annað við tíman að gera og hann líka. Hann fylgdi mér upp og að útganginum, tókumst í hendur einsog herramenn og kvöddumst.

Daginn eftir hringdi hann í mig og - viti menn - fyrirtækið Síminn vill endilega halda í mig og viðskiptin mín. Tel ég þessu máli hafa lokið farsællega fyrir alla aðila. Þannig endaði mitt epíska ævintýri um 3G-reikninginn frá símfyrirtækinu Síminn.

Og það varð mikil gleði og hamingja.

One Comment

  1. Guðný Svavarsdóttir wrote:

    Jeij, til hamingju með þetta elsku drengurinn

    sunnudagur, október 18, 2009 at 17:59 | Permalink

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*