Skip to content

Kafli I: ÉG, GLÆPAMAÐURINN?

Ég vil koma því á framfæri að í þessum skrifuðum orðum þá er ég með hreina sakaskrá. Tvisvar tekin fyrir ögn hraðan akstur (ca. 110 í fyrra skiptið, kannski um 116 í seinna), en ég borgaði sektirnar samviskusamlega. En þess utan þá er ég 30 ára gamall og hef aldrei komist í kast við lögin.

Ég er að mestu ómenntaður, þ.e. engar gráður eða diplómur. Ég hef verið starfandi í þroskaskerðinga- geð- og öldrunarheilbrigðis- og félagsgeiranum í að ganga 9 ár, þess utan hef ég unnið við allt mögulegt. Ég hef borgað mína skatta síðan ég var lagalega skyldugur til þess. Ég hef hagað mér að mestu vel, hef allavega ekki verið til sam- eða þjóðfélagslegs ama. Ég er að jafnaði oftast kurteis, vinalegur og sæmilega vel að máli farinn. Skemmti mér um helgar. Eyði stórum hluta af mínum takmörkuðu launum í reikninga og neyslu, s.s. matvörum, tóbaki, áfengi og ýmsu öðru.

En, þegar ég segi að ég hafi aldrei komist í kast við lögin, þá lýg ég smá. Mér eru minnistæð orðin “[Þórður] er áminntur um sannsögli” úr einni af tveim lögreglusskýrslum sem ég mun vitna í á næstu dögum.

Í þessari færslu og níu til viðbótar sem munu birtast á sama tíma á jafnmörgum dögum mun fjalla að mestu um afskaplega undarleg lögreglumál sem ég lenti í.  Allar þessar færslur eru skrifaðar fram í tíman, þannig að að öllu óbreyttu þá mun aðeins einn maður verða nafngreindur - að mér undanskildum, að sjálfsögðu - en það verður lögregluþjónn hjá lögregluembættinu á Borgarnesi.

Ég má til með að taka það fram að ég ber ágæta virðingu fyrir því starfi sem lögreglan - almennt - stendur fyrir. Vissulega er ýmislegt sem er gagnrýnisvert, t.d. viðbrögð lögreglunnar við mótmælum svo eitt dæmi sé tekið. En því miður fyrir lögregluna í heild þá eru ýmsir starfsmenn hennar sem mættu vissulega gangast undir niðurskurðahnífinn. Til dæmis sá sem ég mun líklegast nafngreina þann 8. febrúar. Fram að því gengur hann undir tölunni 9702.

Haldið ykkur fast, því þetta verður einkennilegt ferðalag um ákveðin lög sem þjóna engum öðrum tilgangi en að þóknast einhverjum geðþóttaákvörðun og duttlungum misviturra, fordómafullra lögreglumanna, almennt lögfræðilegt jargon, hugsanlega hjartnæmt kannabisblaður, dularfull vinnubrögð, móðursjúkir yfirmenn og kannski dulin ósk um umburðarlyndi gagnvart þeim sem neyta vafasama vímugjafa og fúnkera fullkomnlega - líkt og annað eðlilegt fólk sem stundar önnur heilbrigð og óheilbrigð áhugamál - í siðmenntuðu samfélagi manna.

Ég vil þakka öllum sem lásu yfir þennan texta og einnig vil ég þakka öllum sem ég hef ráðfært mig við varðandi þetta mál alltsaman. Tel ekki nauðsynlegt að nefna nein nöfn, þið vitið hver þið eruð og enn og aftur eigi þið mínar bestu þakkir skilið.

(framhald á morgun í hádeginu klukkan 12)

2 Trackbacks/Pingbacks

  1. æBlogDodd / Kafli II: FÓRNARLÖMB MÓÐURSÝKI on þriðjudagur, febrúar 2, 2010 at 12:00

    [...] Kafli I: ÉG, GLÆPAMAÐURINN? [...]

  2. æBlogDodd / Kafli V: ÖGN UM KANNABISBANN on föstudagur, febrúar 5, 2010 at 12:00

    [...] febrúar. Mál þetta varðar hugsanlegt fíkniefnamisferli. Ég mæli með því að hefja lestur á 1. kafla og þaðan að næsta kafla og svo koll af kolli. Einnig gæti komið fyrir að ég bæti við [...]

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*