Skip to content

Kafli III: GHJ-9702

(framhald af þessu)

22. maí 2009 byrjaði ég vinnu mína klukkan 1600. Að loknu rapporti, tók ég til lyfin sem voru í minni umsjá þessa vakt. Stuttu síðar stóð lögreglumaður í gættinni og spurði eftir mér. Þessi lögreglumaður er með lögreglunúmerið 9702 og er starfandi hjá lögreglustjóranum í Borgarnesi. Hann var áður lögreglustjóri í Búðardal en var flæmdur þaðan burt, að mér skilst, út af almennum fávitaskap.

Hann skipar mér að fylgja sér yfir í gamla hjúkrunarrýmið. Fyrir framan húsið blasa við mér tveir lögreglubílar og tveir aðrir lögreglumenn bíða eftir okkur, auk þess voru þeir með fíkniefnahund.

Þetta var á sólríkum og heiðskírum degi, klukkan rúmlega 16:30, verið var að vinna á gamla hjúkrunarrýminu við að rífa niður skorstein og traffíkin framhjá Fellsenda var töluverð. Frá mínum bæjardyrum séð var þessi uppákoma ansi furðuleg, líkt og einhver stórglæpur á borð við morð hafi verið framinn.

Ég hef - svo það komi fram og ég mun líklegast endurtaka það aftur og ítrekað - aldrei upplifað annað eins áður. Nokkurntíma. Ever. Eflaust voru margir ökumenn að furða sig á því hvað væri í gangi þarna, enda er hægt að sjá nokkuð vel frá veginum á bílaplanið hjá Fellsenda.

Ástæðan fyrir þessari lögregluaðgerð var grunur um fíkniefnamisferli. Til að gera langa sögu stutta þá var leitað í herberginu mínu, Þjóðverjans og nýja starfsmannsins. Í þessari leit fannst ekkert hjá Þjóðverjanum, “tól og tæki til neyslu” í mínu herbergi og rúmlega 2 grömm af kannabisefnum hjá nýja starfsmanninum. Upplýsingar um magnið fékk ég frá téðum starfsmanni.

Einnig var leitað í bíl sem ég hafði nýlega fengið afhent lyklana af, en ég hafði í hyggju að eigna mér hann á löglegan hátt. Ekkert fannst þar. Vert er að minnast á að ég fékk ekki að sjá neinn dómsúrskuð fyrir þessari leit, en mér var sagt síðar að það hafi verið nóg að fá leyfi frá forstöðumönnum stofnunarinnar, sem ég held að sé nú ekki allskostar rétt. Og svo leyfi frá mér til að leita í bílnum. Njeee, tjaaa. Mér fannst ég nú ekki hafa neitt val um málið. En, þá er nú gott að vera dálítið vitur eftirá:

Í 75. gr. sakamálalaga nr. 88/2008 segir að leit skuli ákveðin með úrskurði dómara nema fyrir liggi ótvírætt samþykki eiganda eða umráðamanns. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í máli sem finna má í dómasafni Hæstaréttar frá 1994, bls 813, að lögreglu hafi ekki verið heimilt að fara í herbergi E, sem bjó í herbergi á heimili foreldra sinna, þó að A, faðir E, hafi gefið lögreglunni leyfi. Í dóminum segir:

Ákærði bjó í foreldrahúsum og hafði þar til afnota sérstakt herbergi. Það var varið af ákvæðum stjórnarskrárinnar um friðhelgi heimilis. Samþykki föður ákærða sem húsráðanda nægði ekki til þess, að lögreglumenn mættu leita inngöngu í herbergið án dómsúrkurðar, eða samþykkis ákærða.

Það er ljóst að sömu sjónarmið eiga við í mínu tilfelli og í þessum Hæstaréttardómi. Það var ekki nóg að fá leyfi frá forstöðumanni Fellsenda til að fara og leita í mínum vistarverum. Þetta var mitt aðsetur. Þarna var á rétti mínum brotið.

Hvað fannst hjá mér? Ekkert saknæmt. Hvað vantaði? Dómsúrskurð.

Sumar súperlöggur ættu að vera í verulega djúpum skít útaf svoleiðis. Djúpt tekið í árina kannski, en maður hefði nú haldið að lögreglan ætti að fara eftir lögum. En ekki var nú númer 9702 í einhverjum bobba. Onei. Ekki enn allavega.

(framhald á morgun í hádeginu klukkan 12)

One Trackback/Pingback

  1. æBlogDodd / Kafli IV: VALDATRIPPIN on fimmtudagur, febrúar 4, 2010 at 12:02

    [...] viðbrögð æBlogDodd / Kafli III: GHJ-9702 um „Kafli II: FÓRNARLÖMB MÓÐURSÝKI“æBlogDodd / Kafli II: FÓRNARLÖMB [...]

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*