Skip to content

Kafli X: Viðauki

Ég vill bara taka það fram að þessi tiltekna romsa - eða viðauki - beinist ekkert endilega og eingöngu á spurjandan. Gripin glóðvolgur við hvað? Við að neyta kannabis einhverntíman? Tja… fyrsta opinbera staðfesta tilfellið um það er 22. maí. Og hvað með það? Nei, svona í alvöru talað. Er fólk mikið að spá í það hvað aðrir eru að drekka, éta, reykja, sjúga og sleikja heima hjá sér? Ég skal viðurkenna það hér með, enn og aftur og til ítrekunar, að ég hafði efalaust neytt tiltekna tegund af ólöglegu vímuefni einhverntíman á tímabilinu ca. 1. mars til 22. maí (+/-) einu sinni eða oftar (+/-) - OMG - rúmlega 90 daga gluggi eða svo sem fólk getur notað sitt misfrjóa ímyndunarafl til að fylla inní. Hvað voruð þið að gera? Ég bara veeeerð að fá að vita það.

Þessi rammi sem ég hafði til að neyta vissan vafasaman vímugjafa var staðfest um 18:00 föstudaginn 22. maí með svotilkölluðu Quick-Tox-þvagprufuprófi sem framkvæmd var af #9702. Til vitnis voru tveir aðrir lögreglumenn er sáu væntanlega þegar hann fylgdi mér inná klósett, aftur á móti horfði númer nítíusjönúlltveir einn á mig pissa í bolla. Að þeim gjörningi loknum dýfði QT-spjaldinu ofaní hlandbollan. Zimzalabim. Svo var það staðfest aftur rúmlega 14:30-14:40, mánudaginn 31. maí, af sama manni og með sömu aðferð, en að vísu annar áhorfandi. Sem var ekki jafn spenntur yfir gullnu hlandbunusýningu minni líkt og vafasami kollegi hans föstudagseftirmiðdaginn rúmlega tveim vikum áður.

Þetta viðurkenni ég, svo ég spyr bara aftur til áréttingar: Og hvað með það?! Ég var ekki undir neinum áhrifum. Ég vísa í orð sameindalíffræðingins. Ég var þá þegar búinn að keyra í rúman klukkutíma á bilinu 90-100 kílómetra hraða frá Mosfellsbæ (fyrir utan Hvalfjarðargöngin, 70km/hraði) í mínum mestu makindum með einhverja hávaðatónlist í gangi, í blíðskaparveðri, ákveðinn, öruggur og vakandi í umferðinni, sem var frekar lítil þennan dag. Fannst mér og minnir mig.

Til að svara einum hjá Eimreiðinni - ja, svar og ekki svar - um hvað ertu að tala? Í alvöru? Leggst á heilann? Hvaðan kemur þetta rugl? Þetta lyktar af svo algjöru og gallsúru kjaftæði? Leggst þetta kannski á fitukirtlana í heilanum kannski? Hverfur aldrei? Eða rétt aftan við hnakkan á manni og svo tútnar hann út eftir mikla neyslu að maður þarf að tappa úr hnakkanum á 3 mánaða fresti, einsog fólk með vatnshöfuð. En, munurinn er sá, að þú getur drukkið vökvan sem safnast í þessu sérstöku THC-skinnpoka aðeins neðar við mænuoddinn sem hefur verið að þróast á mannverunni í þúsundir ára og orðið alveg bólufreðin mar! Hehe. Je. Tótallí.

Þó gæti verið að þessi staðhæfing  ”að THC leggist á heilann” - en leggur daunillur mýtufnykur af þessu rugli - að einhvermegin beint eða óbeint er verið að vísa í THC-móttakarana, og að það eru sérstakir THC-móttakar í heilanum á manni hlýtur það að vísa í dálítið sérstakt. Að það hefur þróast sérstakur THC-móttakari í heilanum á okkur! Og þessi þróun hófst ekki árið 1963 eða þar um kring. Við erum væntanlega að tala um tugþúsndir ára? Tugmilljón ára? Vattever. Hippa Sapiens? Að þetta gæti allt eins verið ein eðlilegasta neysluvara sem mannkynið þekkir ásamt mat og drykk.

Áhrif eftir hampneyslu vara vanalega í 3-5 tíma. Mælt er með því að einstaklingar sem eru undir áhrifum áfengis sofi eða hvíli sig í minnst 12 tíma áður en farið út að aka. Samkvæmt mínum mjög svo ósamhæfðu fregnum þá er mælt með því að aðilar sem neyti kannabis haldi sig helst heima og aki ekki bíl í minnst tvær vikur. Mánuð eða sex vikur. Eða þrjá daga, eða lengur, eða skemur. Ég satt best að segja veit það ekki. Eða eitthvað sem hentar viðkomandi lögreglumanni.

Það var nákvæmlega ekkert aksturslaginu mínu. Ekki neitt.  Fyrir utan að stóla á minnið mitt og #9702, þá fleygi ég fram til sönnunar þessari staðreynd: Frá rúmlega 15. ágúst til 26. desember 2009 keyrði ég til Fellsenda frá Reykjavík (í einu tilfelli næstum beint frá Hornafirði til Fellsenda, s.s. rúmlega 600 kílómetra á einum degi) og frá Fellsenda til Reykjavíkur aðra hvora viku. Ég man ekki eftir einu tilfelli frá því tiltekna tímabili að hraðamyndavél hafi smellt af mér mynd, að ég hafi keyrt útaf, keyrt á, rennt mér eftir gangaveggjunum í Hvalfjarðargöngnum með þartilgerðu neistaflugssýningu eða neitt annað athugavert eða saknæmt. Nema. Þetta. Eina. Tilfelli. Sem. Var. Algjörlega. Óþarft. Embættisverk. Punktur.

Var einhverjum í þessu samfélagi gerðir greiði með aðgerðum þessa tiltekna lögreglumanns? Ég er varkár og öruggur bílstjóri. Ég á það til að klúðra oggupínuponsusmá hlutum er tengjast akstri, s.s. að stressast stundum upp í umferðinni í stutta stund, drepa á bílnum á ljósunum, leggja af stað í þriðja gír, og eitthvað svoleiðis smálegt - varla telst það saknæmt - en það er afskaplega, afskaplega sjaldan og langt á milli og afskaplega, afskaplega langt síðan að ég hef lent í einhverju sem gæti talist alvarlegt.

Halló! Afsakið endurtekningarnar, ég þreytist það líka smá: Tvisvar stöðvaður fyrir of hraðan akstur. Tvisvar á tíu ára tímibili! TVISVAR! Ég er ekkert agalega góður í reikningi, bara það sem ég lærði að mestu í grunnskólanum, en þar lærði ég til dæmis að talan tveir er voða, voða lág tala, miðað til dæmis við… tja, þrjúþúsúndsexhundruðogfimmtíu, og jafnvel er talan tveir ennþá lág ef við deilum þessari stóru tölu með tölunni tveim: átjánhundruðtuttugufimm. Og svo aftur (912,5), og svo aftur (456,25) og svo aftur (228,125).

Eru fleiri hér á “radarnum” hjá lögreglunni? Ég bara spyr. Er þetta almenn stefna hjá einstökum hópum (eða sellum) innan lögreglunnar? Einhverja svipaða hræðslustefnu gagnvart vissum kimum þjóðfélagsins einsog hjá einhverjum dæmigerðum hryðjuverkasamtökum? En skilgreining yfirvalda á hinni almennu og opinberu stefnu margra hryðjuverkasamtaka er að vekja upp ótta og hræðslu hjá almenningi með óttafengnum aðgerðum.

Varla ætlar lögreglan að líða það að vera líkt við hryðjuverkasamtök? Ha? Þá væri ekki óvitlaust að hætta að haga sínum seglum einsog Al-Qaeda-skútan. Slaka aðeins á með bensíngjöfina, hægja jafnvel á sér og kannski athuga hvert ferðinni er heitið, því lögreglan stefnir á múrvegg af mannréttindabaráttu með sínu háttalagi og brjálæði. Allavega er þetta ekki leiðin að hinu ásættanlega þjóðfélagi sem vel allir gætu lifað sæmilega sáttir í. Hið ásættanlega samfélag er eitthvað líkt útópísku hugmyndum yfirvalda um norrænt velferðarkerfi, plús extra áherslu á almennt umburðurarlyndi, upp að vissu marki, auðvitað,(morð, líkamleg, andleg misnotkun, nauðg, þjófnaður og meiriháttar skaði gagnvart öðrum borgurum lýðræðisins verður væntanlega ekki vel liðið).

Afsakið stóryrðin og ofsóknaræðið fyrir hönd okkar allra - sirka 40-50þúsund - sem neytum kannabis af og til og stundum oftar (þ.e. ef marka má þessar tölur er segir að Þórarinn Tyrfingsson áætlaði árið 2004 að fjöldi kannabisneytanda væru á bilinu 30-45þ.manns, sem neyttu þess aðeins einu sinni og/eða oftar á ári, væntanlega búið að fjölga síðan þá svo má einnig skoða þessa umræðu frá 2004) kynnið ykkur lögin og passið ykkur.

Þetta gæti meira segja verið afskaplega hófleg tala, við gætum verið 100.000. Ég er temmilega bjartsýnn sem jaðrar við svartsýni hjá sumum að halda að á bilinu 10-20 þúsund manns neyta hamps á einhvern hátt mjög sjaldan eða oft á ári. En mér finnst þessar vangaveltur um fjöldan vera dálítið merkileg, einnig hvað kannabis er að verða frekar stór hluti í þjóðfélagsumræðunni - oftast á neikvæðu nótunum að vísu og mjög sjaldan að ígrunduðu máli.  Flestir ættu að taka eftir því að þetta er ansi algeng hegðun - að neyta kannabis þ.e.a.s. - og ætti - að mínu hógværa mati - að heyra undir almenn mannréttindi og heilbrigðismál. Getur Dóms- og mannréttindamálaráðherra tekið afgerandi afstöðu í þessu málefni? Ef til vill og vissulega. Hugsanlega eitthvað snöggt og skorinort, og íslenzkt:

Já, við ætlum að fokka ykkur upp. Nei, þetta verður aldrei til umræðu á jafnréttisgrundvelli. Fokkið ykkur, fokking hippar! Og það sem ég sagði þarna vorið 2009, ég var að fokking grínast þarna fíflin ykkar! O.G. Ragga Át.

En kommonn, af hverju er neysla kannabis orðin af einhverju gríðarmáli eina ferðina enn? Við erum kannski að tala um tæplega 50 þúsund manns? Varla er allur þessi fjöldi einhverjar atvinnulausar síðhærðar og skeggjaðar steríótýpur sem ganga dagsdaglega um í slopp og náttbuxum og eru á bilinu 30-40 ára? Spila kannski keilu við hvert tækifæri? Leitandi af teppinu sínu? Segja “meeelur” og “miiiskilninguuur mar!” rosalega oft? Möguleikinn að allt þetta fólk eigi eftir að leiðast útí neyslu töluvert sterkara og hættulegra efna eru varla mikið meira en fólk sem dílar við áfengisvandamál, fjárhættuspilavandamál o.s.frv. Ef marka má þennan greinarstúf þá eru rúmlega 2000 innlagnir inná SÁÁ árlega. Af þeim um 200 yngri en tvítugt og um hundrað af þeim sem á við vímuefnavandamál að stríða. Ein saklaus spurning: hversu áreiðanlegar eru þessar tölur? Annars, ef þetta reynist vissulega satt, þá hef ég bara þetta að segja:

Flott. Gott hjá þessu fólki að leita sér hjálpar við sín vandamál. Bara glæsilegt og þið hafið allan minn stuðning, ef þið viljið þiggja hann. Vonandi að sumir hafi hætt þessu alfarið og lifi bara eðlilegu lífi og vonandi að aðrir hafi bara náð að stjórna sinni neyslu í kjölfarið. En, þá erum við enn með einhverstaðar á bilinu 18-48 þúsund manns sem telja sig ekkert endilega þurfa sérstaka aðstoð við sína neyslu - einstök frávik, vissulega - en flestir eru væntanlega starfandi, afla tekna og borga skatta.

Einhvernmegin hlýtur þetta þjóðfélag að halda sér gangandi. Ekki nema… að neysla kannabis hafi ollið þessu gríðar fjárhagslegu þjóðarhagkerfistjóni. Að allir þessir bankakónar og pólítíkusar voru alveg bólufreðnir… hehe… jámar… gjössamlega taðreyktir bara að tala um gjaldeyrisviðskiptahallavaxtarverðbólguprósentu og annað fjárhagssatanískt… hehe. Jámar, það væri geggjað! Og alltaf kúkandi uppá bak.

Minnir mig á allan niðurganginn sem er í grein frá Félag íslenskra fíkniefnalögreglumanna. Það er alveg stórundarlegt hvað greinin er full af skít og niðurgangi. Ég mana ykkur, lesið þessa gríðaráhugaverðu grein er heitir Skaðleg áhrif kannabisefna á fíknó punktur is sem nálgast má hjá fíknó punktur is. Hversu mikið í þessari upptalningu um fráhvörf eða einkenni á til dæmis við langvarandi þreytu? Flensu? Streitu? Kvef? Ýmis veirueinkenni? Þögull en sársaukafullur sársauki? Ýmsa geðsjúkdóma? Ofnæmiseinkenni?

Þetta getur átt við allt þetta. Og hvað með það? Ó nei! Drengurinn minn er með niðurgang og nefrennsli! HANN HEFUR REYKT MARÍJÚANA! Nei, nú er mér nóg boðið og ég hringi sko í lögregluna og segi þeim frá, bið þá um að koma og með fíkniefnaleitarhund! Hingað og ekki lengra. Þarna fór hann yfir strikið! Og þess háttar hysterísk viðbrögð frá móðursjúkum einstaklingi sem heldur að ávítur frá lögreglunni eigi eftir að leysa eitthvað.

Ég skal taka þetta “vandaða” verk frá Félagi íslenskra fíkniefnalögreglu almennilega fyrir síðar meir hér á þessu bloggi. Segjum mars? Eða… apríl kannski? Maí, ef til vill? Sjáum til. Einhvern tíman á næstunni. Þetta er bara eitthvað svo hroðvirknislegt og illa uppsett grein að ég fæ í magan á því að lesa þetta. Uss, ég held ég sé að fá niðurgang.

En, varðandi hysterísk viðbrögð: Afleiðingarnar af svoleiðis “greiðum” og “kurteisisheimsóknum” geta orðið verri samfélagsleg brennimerking og óþarfa aðför að þinni æru, sæmd og heiður - ef ég gerist svo frakkur í orðskrúðanum - en það að viðurkenna almennt fyrir öllum sem þú þekkir að þú sért samkynhneigður kaþólikki. Ég meina, að þú neytir kannabis.

Verður þetta kannski viðlíka algengt eftir fimm til tíu ár að kalla einhvern “djöfulsins fokking hippi mar!” og að kalla einhvern “djöfulsins fokking hommi mar!” er nú og hefur verið undanfarin þrjátíu ár eflaust. Lengur jafnvel.

Hvernig áhrif á það að hafa að taka einhverja einstaka aðila fyrir, t.d. á vinnustað, nú eða bara á skólalóð, og leyfa öllum í kring að hía á þá? Ég kannast við það úr minni æsku í barnaskólanum. Einelti eða eitthvað svoleiðins nýmóðins. En einelti varð ekki tískubóla fyrren uppúr 1995 og stóð í tæp tíu ár. Efalaust var átak: Eineltislaust Ísland árið 2000! Ah… gömlu góðu dagarnir, þegar allt átti að gerast árið 2000.

Einelti, já. Það kallast það. Þegar tiltekin einstaklingur - sem er í nöp við annan einstakling/mannkima sem hagar sér á vissan hátt eða hefur vissar skoðanir eða er á einhvern annan hátt eitthvað öðruvísi eða afbrigðilegur, helst á skjön við einhverja hugsanlega “samíslenzka” hegðun - ræðst að öðrum með óþægilegum aðsúgi sem viðkomandi getur varla rönd við reist. Stundum fær gerandinn fleiri með sér sem eru með svipaðan þankagang og/eða ranghugmyndir, eða lætur að öðru leyti vel að stjórn og tekur við skipunum. Jú, eitthvað svona kannaðist maður við frá vissum nemendum í barnaskóla. Nema upphafsmenn eru ekki nemendur í þessu tilfelli, heldur stjórnendur vissra stofnana og lögreglan. Og þessar aðfarir í þessu verulega auma og ónauðsynlega fíkniefnastríði eru ykkur hamphaterz að nær öllu leyti til skammar - nær öllu leyti segi ég, því auðvitað eru til frávik þar sem þetta gerir eitthvað eilítið og alvöru gagn.

En ég skal reyna draga úr pillum mínum gagnvart einkennisnúmeri 9702 og ég skal þá einbeita mér að því að tala um “einstaka atburði lögreglunnar á [einhver landshluti] við/í/á/frá [sveitafélag]“.

En, já. Ég tek þessa grein frá fíknó og ræði betur um hana síðar. Ráðist á rökin mín einsog brjálaðir rottweilerhundar. Eða dragið eitthvað ómerkilegt úr ræsinu til að kasta í mig. Eða… [einhver ómerkileg en þó hnyttinn tilvísun í epízka rababarabattl gærdagsins]. Eða eitthvað.

One Comment

  1. Kalli Rögnvalds wrote:

    Berið þið gjarnan saman hvað fíknó eyðir mörgum orðum í að aðvara gegn misnotkun læknadóps eða „læknislyfja“ lyfjafyrirtækjanna til samanburðar við orðaflaum þeirra um kannabis. Það eru nákvæmlega 10 línur af texta um læknadópið meðan upptaliningin á hörmungum hinnar bannfærðu jurtar er 56 línur af texta. Undir yfirskini hlutleysis. Er einhver hérna sem sér í gegnum nýju..fyrirgefið, gömlu fötin keisarans? Þetta er auðvitað grímulaus pólitík sem auðvitað gengur út á að tryggja þeim lögreglumönnum sem vinna við þennan málaflokk atvinnuöryggi. EN það er ekki hlutverk lögreglunnar að vera hlutdræg í pólitískum málum og vera með pólitíska afbökun og áróður. Það er ekki það sem við skattgreiðendur erum að borga þeim fyrir. Þeirra hlutverk er ekki að vera að spila gáfnaljós og hafa álit á lögunum heldur að framfylgja þeim hversu fucked up sem þau eru. Ákveðinn mælikvarði á greindarvísitölu þeirra sem velja sér þennan starfa útaf fyrir sig - ekki satt? En það er okkar að upplýsa og þrýsta á um breytingar. Status quo er andlegur súrefnisskortur og dauði.

    miðvikudagur, mars 10, 2010 at 14:59 | Permalink

Post a Comment

Your email is never published nor shared. Required fields are marked *
*
*