Skip to content

I. Ófriðarseggir og aðrir róttæklingar

I.

Í apríllok árið 1941 gerðist einkennilegur atburður hér á Íslandi. Í kjölfar gagnrýni á hendur breska hersetuliðsins í sósíalíska blaðinu Þjóðviljanum voru tveir ritstjórar þess og blaðamaður handteknir, færðir í breskt herskip og fluttir til Bretlands þar sem þeir voru síðan látnir dúsa í fangelsi í tvo mánuði. Þetta voru þeir Einar Olgeirsson, 4. þingmaður Rvk og formaður Sósíalistaflokksins, Sigurður Guðmundsson og Sigfús Sigurhjartason. Ekki nóg með það þá tók herstjórnin sig síðan til og lagði bann á útgáfu Þjóðviljans, en að vísu var nú ekki tekið hart á því banni, því tveimur mánuðum seinna voru þeir lausir úr haldi og hafist var við útgáfu á Nýja Dagblaðinu þar sem Einar Olgeirsson var ritstjóri. 1942 var útgáfubanni á Þjóðviljanum aflétt.

Ég vildi bara minna ykkur ófriðaseggina og róttæklinginna á þetta sögulega atvik að ykkur er ekki óhætt á stríðstímum og vill ég undirstrika að það eru tvö stríð í gangi: Stríð gegn Eiturlyfjum© og Stríð gegn Hryðjuverkum©

Þetta þýðir að það gæti orðið ámælisvert og jafnvel leitt til handahófskenndar handtökur að gagnrýna hvorutveggja.

II

Um árslok 1933 skrifaði Þórbergur Þórðarsson harðorða grein sem hét “Kvalaþorsti Nazista” er birtist í Alþýðublaðinu. Þessi grein var skrifuð kjölfar þess að Nasistarnir í forystu Adolfs nokkurns Hitlers hafði náð að mynda meirihluta stjórn í Þýskalandi. Hann benti á vankanta á þessum flokki og hvað þeir ætluðust fyrir, þ.e. landvinningar og stríð, viðhalda hinum hreinræktaða aríska kynstofni og útrýma rest og bara almenn valda- og péningagræðgi sem einkennir alla stjórnmálaflokka eða í það minnsta marga breyska meðlimi innann vissra flokka.

Í byrjun árs 1934 birtust harðvítugir pistlar í Vísi og Morgunblaðinu um téðan Þórberg. Þessir pistlar voru frekar aumkunarverðar tilraunir til að rægja orðspor þennan mæta ofvita, maður sem leit á það sem hreinræktaða dyggð að segja satt og rétt frá. Sagt var meðal annars að þetta væri maður “sem engin tæki mark á” og auk þess var hann ásakaður um að spilla viðskiptasamningum milli Íslands og Þýskalands sem er einkennilegt miðað við að þetta átti að vera maður “sem engin tæki mark á”.

Þýski ræðismaðurinn var gróflega misboðið að sjá sannleikann og upphófust mikil málaferli þar sem Þórbergur var kærður og sektaður um 100 krónur, sem jafngildir um 50.000 krónum í dag, fyrir að segja satt og rétt frá, enda vita allir hvað gerðist örfáum árum seinna. Ég leyfi mér að vitna í sjálfan mig:

[...]landvinningar og stríð, viðhalda hinum hreinræktaða aríska kynstofni og útrýma rest og bara almenn valda- og péningagræðgi

Eru samhliða atburðir að gerast núna? Sumir vilja meina að Þriðja ríki Þjóðverja og stjórnarfarið er keimlíkt vissu vestrænu heimsvaldaríki nútímans. En hver sá sem dettur þvílíkt í hug og birta annann eins ósóma á e.t.v. í hættu að vera kærður og sektaður af ræðismanni viðkomandi valdagráðugu heimsveldi. Eða muni hverfa á dularfullann hátt…

Skondið er samt að viðhorf þessara blaða gagnvart rithöfundinum og sósíalistanum knáa breyttust töluvert þegar eitthvað stríð sem kennt er við heiminn og henti í annað sinn hófst og mátti rekja upphafið hjá vissu ríki númer þrjú.

III

Margir Íslendingar sem aðhyllast stefnu sem er stjórnvöldum ekki þóknaleg telja sig geta sloppið alfarið við athæfi sem tíðkast erlendis, svo sem í Sádi-Arabíu eða Bandalag Norður-Ameríku. Hér eiga róttæklingar máske von á nokkrum skrámum, þessvegna aðeins andað að sér táragasi og ef til vill fengið fægða kylfu í höfuðuð, með öðrum orðum, að hér ekki sé mikil hætta á handahófskenndum handtökum, dularfullum hvörfum, ofstopafullum aðgerðum þrælshunda valdstjórnarinnar eða vafasömum dauðdögum hér á okkar ástsæla og kæra fróni, bara furðuleg mannshvörf á borð við Gvend og Geira.

Nú er ég ekki vanur að fullyrða, hvað þá að koma af stað sögusögnum eða, gvuðforðimérfráþví, fara með gífuryrði, en slæmir hlutir hafa gerst. Ekki er langt síðan að hópur útlendinga voru handteknir og vísað úr landi fyrir það eitt að nýta sér málfrelsi og skoðanafrelsi sem við vesturlandabúar stærum okkur af (fyrir utan Bandalag Norður-Ameríku, að sjálfsögðu og að vissu leyti Stóra-Bretland einnig) og híum að þessum villimönnum langt eða stutt í austri. Einnig var hálfáttræður háskólaprófessor hrint af vel dressuðum þræli með mikilmennskubrjálæði, við frekar friðsamlega mótmæli útaf fyrrgreindum aðgerðum lögreglunnar á hendur þessara útlendinga, með þeim afleiðingum að höfuðið á honum rakst utan í tröppu og hann rotaðist. Einnig var mér tjáð frá traustum heimildum að leiksoppar svokallaðra lög og reglu neituðu að hjálpa honum, eflaust uppteknir að hafa hemil á þessum brjálæðingum, um 20 talsins. Og fyrir þá sem ekki eru kunnugir um smá nútímaíslendingasögu, þá bendi ég lesendum á dagsetninguna 31. mars 1949, á þeim tíma henti skemmtileg saga, en önnur saga er einnig áhugaverð.

Laugardagskvöldið 14. mars 1942 voru tveir kunningjar á leið inná Laufskála við Engjaveg. Þetta voru Gunnar Einarsson vélfræðingur og Magnús Einarsson, verksmiðjustjóri. Þegar þeir keyrðu eftir Hálogalandi voru þeir stöðvaðir af amerískum varðmanni og vildi hann fá að vita hvert ferðinni var haldið. Sögðu þeir einsog var hvert þeir voru á leiðinni og héldu svo áfram. Ekki var bíllinn kominn langt þegar skotið var á eftir bílnum og byssukúla hitti Gunnar í hnakkann. Vitaskuld stöðvaði Magnús bílinn samstundis og stökk skelkaður út og sá að hermenn komu hlaupandi á móti honum. Gunnar var fluttur á Laugarnesspítala og andaðist klukkan 3 að nóttu. Hann skildi eftir sig eiginkonu, Þóra Borg leikkona.

Ekki veit ég hvað stóð varðmanninum til að skjóta á saklausa borgara, ef til vill var hann taugatrekktur eða var bara að fíflast með byssuna eða fannst eitthvað dularfullt við ferðalag þessara félaga svona seint eða að þarna hafi orðið samskipaörðugleikar og félagarnir höfðu misskilið orð varðmannsins um að ´bíða´ fyrir að ´halda áfram´, ekki þori ég nú að fullyrða, þó skal ég ýja eilítið. Einsog allir sem lesið hafa góðar goðsagnir frá þessu tímabili, þá er ein sagan sem fjallar um Kommagrýluna er lötraði nær óhindrað um vesturlönd… gæti verið að skessan sú arna hafi nartað í varðmanninn þegar hann var á sínum heimaslóðum mörgum árum áður og hann hafi fundið lyktina af henni í bílnum þetta kvöld? Veit ekki. Þetta er bara áhugaverð saga.