Skip to content

f. Íslenski menningarskandallinn 2007!

16. janúar 2008 klukkan 20:20

Ég var ansi töluvert spenntur fyrir DVDiskútgáfu Fóstbræðra í desember þegar það var tilkynnt um þá útgáfu í ágúst ef ég man rétt. Ég taldi mér og öllum sem vildu heyra að hér væri á ferðinni stórmerkilegur menningarviðburður, að loksins mundi ein besta gamanþáttasería fá þá meðferð sem hún á vafalaust skilið. En óánægjan var meiri en þegar ég frétti af hinni svokölluðu viðhafnarútgáfu Sódómu Reykjavík, sem var algjört slor, en þessi útgáfa var verri en slor, þetta var ómelt ostra í maganum á dauðum ketti.

Fyrir það fyrsta kemur þetta út í fimm útgáfum, en ekkert boð var um allavega eina spes viðhafnarútgáfu þar sem allar seríurnar voru ásamt aukefnið á diskunum, sem kom svo í ljós að var ekkert, það var ekki einu sinni val um texta hvorki íslenskan, enskan, sænskan, norskan eða danskann ef manni dytti í hug að sýna einhverjum erlendum félaga þá gimsteina sem hægt er að finna á diskunum. Þvílíkur fáheyrður dónaskapur og lélegheit! Það var líkt og útgáfufíflin hjá Senu ákváðu að skeina sér í andlitin á þeim er vilja viðhalda þeim menningarverðmætum sem sjónvarpsserían Fóstbræður óneitanlanlega eru.

En sú staðreynd að það eina sem er á diskunum eru þættirnir fölnar í samanburði við þetta hér:

Þvílíkur fóstbræðraskandall!

Á meðan það kostar 1.995 krónur að fá 24 þátta seríu, sem kostar umtalsvert meira í framleiðslu, en hefur þó í boði auka- og smá ítarefni. Það er val um mismunandi texta, hljóð meira segja. En á meðan kostar 10.000 krónur að kaupa alla Fóstbræður, 8 þættir hver sería, fimm seríur, 40 þættir. Þetta væri næstum því ásættanlegt ef það væri eftirfarandi: Þetta væri einn pakki, inniheldur íslenskan og erlenda texta, commentary, mistök, skets sem voru sleppt, lengd atriði, viðtöl og hvaðeina og jafnvel fróðleiksmolar sem poppa upp meðan horft er á þættina. Nógur var nú skandallinn að fóstbræður voru ekki gefnir út á DVD á sínum tíma, vegna markaðsráðgjafaretarða sem trúðu því árið 1998-99 að DVDiskar mundu ekki ná neinum vinsældum, maður hefði eflaust verið sáttur við þessa tilteknu DVD-útgáfu fyrir tíu árum síðan, en þegar maður er búinn að venjast snilldarlegum DVD-útgáfum á borð við viðhafnarútgáfum á Blade Runner, Lord of the Rings, Alien-serían og fleiri og í raun búist við því að klassík á borð við Fóstbræður mundi fá þá konunglegu viðhafnarútgáfu sem þeir eiga skilið. Þessir kónar beinlínis björguðu húmornum frá klóm ófyndra miðaldra manna sem vinna hjá RÚV og á þetta að vera arfurinn til komandi kynslóða? Fokking skandall, og talandi um aukalegan skandall:

Fóstbræðraskandall

Er enginn metnaður hjá þessu fyrirtæki?

Ég veit að sá sem sendi mér fanmeilið er sammála mér.